miðvikudagur, maí 28, 2014

Það er ennþá lífsmark.Ég get svo svarið það að ég upplifi alvöru heimþrá að ég held í fyrsta sinn núna í kvöld. Ég hef verið að lesa Eystrahorn á netinu,nokkrar vikur aftur í tímann.  Þvílíkt sem er um að vera! Gott fólk í framboðum, fólk sem ég þekki og veit að eru hörkudugleg og samviskusöm.
Ég hef stundum velt því fyrir mér, að flytja heim. Ég verð að segja, að mér finnst þeir sem flytja heim eftir að hafa búið erlendis, vera kjarkaðir. Ekki er það nú endilega auðvelt að flytjast í burtu og hefja nýtt líf í öðru landi en að koma heim, eftir langa fjarveru getur bara ekki verið auðvelt. Þegar ég flutti, þá var það einfaldlega vegna þess að ég elskaði Bert og vildi vera með honum. Eyjólfur var kominn í heiminn en hann var svo lítill að þetta var ekkert mál. Hann myndi ekki þekkja neitt annað. Í langan tíma fór öll mín orka ekki bara í að aðlagast nýju lífi í nýju landi, heldur einnig að kynnast manninum mínum. Eins og í öllum hjónaböndum, þá gekk á ýmsu en það hafðist og mun ég aldrei sjá eftir að hafa flust í burtu frá því sem var kunnuglegt eða að hafa sagt upp vinnunni minni sem tónmenntakennari og öllu því sem því fylgdi.  Síðan ég flutti þá hefur mér liðið vel. Mér líkar vel við kanana og hef sankað að mér góðum vinum og kunningjum.  Margir vina minna hér hafa í raun orðið einskonar ættleidd fjölskylda og gæti ég ekki hugsað mér lífið án þeirra.
Ég fann amerísku ræturnar í Ilinois. Ég náði fótfestu. Ég fullorðnaðist og kynntist sjálfri mér sem fullorðinni manneskju. Svo fluttum við til Kaliforníu og höfum verið hér í 2 ár. Það var okkur svo líkt að flytjast á stað í þessu ríki, sem fæstir höfðu einhverntímann heyrt af. Victorville. Hér er samansuða af kynjakvistum og fæstir af þeim eru heimamenn heldur fólk sem vegna margra ólíkra ástæðna fluttust hingað. Við erum iðulega spurð afhverju eiginlega við kusum að flytja hingað. Fólk á bágt með að trúa að einhver kjósi af sjálfsdáðum að búa hér.  Hér eru fleiri reglur en ég kynntist í Chicago. Við hjónin höfum oft blótað hressilega þegar við rekumst á skriffinsku-báknið hérna. Þvílíkt og annað eins stundum. ( Einn staðurinn tók ekki ávísun frá okkur því bankinn okkar er ekki í Kaliforníu fylki.) Nú eftir 2 ár, þá er komin viss rútína í líf okkar. Einhverjar rætur hafa myndast. Strákarnir eiga orðið vini, þeir eru í fimleikum og bogfimi. Við eigum orðið hús o.s.frv. Ég komst loks inní nám aftur og ætla mér að ljúka því. En hvað svo? Hvað gerist þegar ég hef lokið námi? Þá sæki ég um vinnu og vonandi get farið að vinna við það sem ég vil og Bert getur kannski verið meira heima. Við höfum rætt að gaman væri að koma heim um tíma. Við sögðum það alltaf þegar Eyjólfur var lítill-að við kæmum heim þegar hann væri 7 ára og yrðum í ár. Það er svo auðvelt að segja svona en erfiðara að framkvæma þegar maður er sáttur.  Ótrúlegustu hlutir stangast á innra með mér þó. Mér finnst stundum eins og ég sé liðhlaupi. Ég sé að svíkja land mitt og þjóð með því að líða vel hjá annarri þjóð sem ég kaus að gerast ríkisborgari hjá. Hinn stolti og mikli Íslendingur, ég, bý bara ekkert á Íslandi heldur reyni að vera tveir-íslendingur og bandaríkjamaður-svona Ísblanda. Þó mig langi stundum að flytjast heim, þá hræðir það mig. Ég held ég sé hrædd við að passa ekki inní þjóðfélagið aftur. Eftir smá stund þá væri ég ekki í heimsókn, heldur íbúi og þá þyrfti maður sko að sanna sig. Ég væri hrædd við að flytja heim með strákana sem alla tíð hafa verið í enskumælandi skóla. Þeim gengur vel, en hvað ef þeir færu í íslenskan skóla og þyrftu að gera allt á íslensku? Bert talar ekki íslensku, og á Íslandi talar maður íslensku. Ég hef sagt það sjálf og segi það oft hér-að maður verður að geta talað það mál, í því landi sem maður kýs að búa í, allavega svo maður geti gert sig skiljanlegan.
Hægt væri að segja að strákarnir myndu aðlagast fljótt og vel. Þeir skilji jú íslensku og tali hana ágætlega svona miðað við allt og allt. Bert myndi bara læra tungumálið os.frv. Ég hef samt séð það sjálf og heyrt frá öðrum að svona einfalt er það bara ekki.
Ætli það sé gegnumgangandi hjá brottfluttum að hugsa svona? Það er svo margt fólk til í þessari veröld að ég býst við að ég sé ekki sú eina sem bý við svona þankagang endrum og sinnum.
En þetta er nú svona...Ég segi góða nótt, kveð ykkkur í kútinn og kalla ykkur góð ef þið entust þetta raus.
Svanfríður.

laugardagur, apríl 20, 2013

Og þá kom flóðið.

Jæja, heil og sæl.
Ekki hef ég bloggað í 3 mánuði og held ég að það sé met. Ekki er það vegna þess að ég vilji það ekki, frekar vegna þess að ég hef ekki almennilega vitað hvað ég er tilbúin til að setja á netið.
Undanfarnar vikur hafa verið frekar erfiðar ef ég á að vera alveg hreinskilin. Margt í gangi á mörgum vígstöðum. Finnst þessi útivera Berts hafa tekið á og ég hef fundið fyrir því að ég er á nýjum stað, meira en ég hef fundið fyrir áður.  Ekki svo að skilja að ég sitji heima og nagi neglurnar og hugsi "Oy vei!" En það er eitthvað við þennan stað, Victorville. Eitthvað sem er erfitt að útskýra, eitthvað sem maður verður að finna sjálfur og upplifa.

Victorville er staðsettur uppi á fjalli og er hægt að segja að svæðinu svipi til Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs, að því leytinu að hann liggur að tveimur öðrum bæjum og erfitt er að segja til um hvar einn bærinn byrjar og endar. Hesperia, Victorville og Appel Valley. Falleg nöfn en það mannlíf sem byggir bæina segja aðra sögu.  Í den tid bjuggu hér fáir og þeir sem völdu að búa hér, gerðu það einmitt vegna þess að staðirnir voru úr alfaraleið. Hollywood stjörnur áttu hér athvarf og lítið var um mannlíf og afþreyingar.  Svona svipað eins og maður upplifði Reykvíkinga þegar þeir hugsðu út á land. Um 115.000 manns búa hér í Victorville.  Árið 2007 var íbúðar tala þessara þriggja bæja um 246.000 en mikið hefur fjölgað síðan og hef ég heyrt því fleygt að nú búi hér yfir 300.000 manns. Þannig að allt svæðið telur aðeins minna en allt Ísland.  Ástæða fyrir fólkfjölda er sú að hér er mun ódýrara að lifa en "down the hill". Húsnæði, bæði að kaupa og leigja er miklu ódýrara en til dæmis inní L.A eða San Diego.  Matvara hér miðað við Chicago sem og húsnæði, er mun ódýrara en annað er dýrara, t.d eins og rafmagn, gas og vatn.  Og úr því að byggðin er byggð í eyðimörk, þá auðvitað er aðal-liturinn hér ljósgulur. Hér sér í fjöll og þykir mér það ósköp notalegt.  Hitinn hér er þurr og á sumrin er óhætt að segja að hann standi í 35-40 gráðum. Svo hrapar hitastigið á kvöldin og nóttunni og þá er gott að eiga íslenskar sængur. Vetur eru mildir og sáum við t.d snjó einu sinni í allan vetur. Ég man varla hvernig veður er þegar það er vott en ég hlakka til að fá rigninguna.  Vorið er vindasamt og þá getur orðið mikið sandrok.  Ég varð t.d að fella niður fótboltaæfingu einn dag í síðustu viku vegna sandroks.  Mörg hverfi hér eru í niðurníslu og voga ég mér að segja að margt fer öfganna á milli, bæði í útliti fólks sem og híbýlum þeirra.  Hverfið sem við búum í, Spring Valley Lake er eitt það besta á svæðinu og er mjög fallegt hér. Það var byggt árið 1969 og árið 2010 bjuggu hér 8200 manns. Hér er strönd, leiksvæði, hestaslóðir, tjaldsvæði, golfvöllur, sundlaug, tennisvöllur og fleira. Einnig er lítill þjónustukjarni þar sem hægt er að fara á pósthús, sjoppur, bari, fasteignasölur, bensínstöð og fleira.  Einnig er hér bryggja og eiga margir hér báta. En flest af þessu er innan seilingar ef borguð eru gjöld. Ef ekki, þá er fólk ekki gjaldgengt á ströndina, róló og fleira. Hér er einnig öryggisvarsla og er hún öflug og það er ósköp gott að vita af henni. Spring Valley Lake var staður ríka fólksins. Er það þó í rauninni ekki lengur og allra síst eftir að hrunið gekk yfir. Morð var framið hjá þjónustukjarnanum eftir áramót en þannig stórglæpir eru afar sjaldgæfir. Mest er kvartað yfir hundsgái og ósjálegum görðum. Ég fékk t.d áminningu fyrir það eitt að ruslatunnan mín var sýnileg frá götunni, fyrir framan húsið okkar, sem n.b er í botnlanga. Og ástæðan fyrir því að ruslatunnan var þar, var einfaldlega sú að ég kom henni ekki að hlið hússins vegna þess að unnið var að gaslögninni og því allt upp grafið.
En fólkið hér er sér á báti. Það er alls ekki jafn vingjarnlegt og í Illinois. Ekki "Hey, how are you". Enginn horfir á þig, meira er um dónaskap en ekki, bæði frá einstaklingum og á þjónustustöðum.  Mikið er um láglaunafólk sem og atvinnulausa, og langskólagengið fólk hér er í minnihluta.  Heimilisofbeldi, eiturlyfjaneysla og glæpir eru algengir hér og sá dagur hefur ekki liðið sem ég hef ekki heyrt eða séð lögreglu-,slökkvi-,og/eða sjúkrabíla á fleygifartinum.  Vel flest allar stöður lækna hér eru fylltar af indverjum, mið-austurlandabúum eða mexíkóum. Bandarískir læknar fást varla til að starfa hér uppfrá. Ég get ekki svarað afhverju það er. Í barnaskóla þeirra bræðra (sem er góður) eru mínir strákar í minni hluta. Ég á ekki við litarhátt og það hvort eð er skiptir engu máli. Ég á við, að fæst barnanna búa á heimili þar sem báðir foreldrar eru viðstaddir. 740 börn eru við skólann (kindergarten upp í 6.bekk) og langt innan við helmingur barna í bekk (um 30-33 börn í bekk) búa með báðum foreldrum. Mörg þeirra eiga foreldri sem situr í fangelsi og stór hluti býr hjá fósturfjölskyldu.  Ég sit í tveimur nefndum tengdum skólanum og ég hefði ekki trúað því hversu erfitt það er að fá foreldra til að sýna námi barnanna áhuga. Jafnerfitt og að biðja biðja Lama dýr um að hrýna.
Ég hef barist á móti við að sjá nýja heimabæinn okkar með þessum augum. Það er leiðinlegt að sjá þetta þegar horft er í kringum sig. En merkilegast við þetta allt er, að þó ég geti pirrað mig endalaust á hranaleika fólksins hér og hversu langt það getur verið að sækja hlutina, þá er ekki langt í fegurðina heldur. Hún er þar þegar maður opnar augun.  Ég hef kynnst fullt af góðu fólki, á tvær mjög góðar vinkonur hérna t.d. Þeir bræður voru ekki svona glaðir í skólanum í Cary og áttu ekki eins nána vini þar eins og hér. Eyjólfur blómstrar í skólanum og Natti sömuleiðis. Eyjólfur stendur á sínu og er óhræddur við að svara fyrir sig þegar frökku börnin í skólanum reyna eitthvað og hefur það borgað sig.  Enda er hann látinn í friði og leikur sér sáttur með sínum vinum.  Ég vinn með fáu en áhugasömu fólki í barnaskólanum og er það mjög gaman. Gaman að taka þátt í stjórnarstörfum og vita hvað er í gangi.  Ég þjálfa fótbolta og þó svo ég hafi aldrei gert það áður þá gengur þokkalega og ég hef kynnst góðu fólki þar líka. Þannig að það er aldrei langt í það góða, sem betur fer.
En þetta er komið gott, kannski entust þið ekki einu sinni við lesturinn? Við sjáum til.
En nú kveð ég í kútinn:) Svanfríður.

þriðjudagur, janúar 15, 2013

Og áfram svömlum við þetta...

Og veröldin fórst ekki eins og talað hafði verið um í allt of langan tíma. Ég er himinlifandi yfir þeirri staðreynd. Enda var gaman að fagna nýju ári. Við þríeykið gerðum það glöð í lund ásamt vinum sem komu til okkar í mat, spjall og glens. Bert fagnaði svo nýju ári einhversstaðar, en gerði það bara svona innra með sér og án láta.
Það er ósköp fátt að frétta nema þetta vanalega. Skóli strákanna byrjaði á mánudag í síðustu viku og mikið sem það var erfitt að þurfa á fætur klukkan 06 á morgnana. Ósköp ljúft að geta sofið út, finnst ykkur það ekki? Ég var hálf hissa yfir því hvað jólahátíðin gekk vel í raun hjá okkur mæðginum. Enginn asi, ekkert stress, engin læti í þeim bræðrum. Allt gekk eins og í sögu og við nutum gesta sem komu hingað heim til okkar í tvö skipti sem og nutum við þess að vera gestir í matarboði.
Bert er hress þar sem hann er, vinnur mikið og er farið að lengja að koma heim heyrist mér. Það fer að koma að heimför hjá honum, einhverjar 7 vikur í að hún bresti á.  Ég byrja svo í skólanum í næstu viku og hlakka ég til. Það verður fróðlegt að gera þetta svona alveg í fjarnámi. En ég vona að þetta gangi vel, að ég fái svo verknámspláss einhversstaðar og verði svo löggildur áfallaráðgjafi.  Mjög fróðlegt þykir mér. Ég kannski æfi mig á einhverju ykkar, þið leyfið mér það er það ekki?
 En ég er svo andlaus núna að ég ætla að kveða ykkur í kútinn núna. Langaði bara aðeins að sýna ykkur að það er líf í æðum og á blogginu.
Ég vona að ykkur líði öllum ágætlega, og að þið sjáið fram á að draumar ykkar og þrár, geti ræst ;)
Svanfríður.

mánudagur, nóvember 26, 2012

Munnræpa

Ég verð sjaldan eins þreytt í eyrunum og eftir kjaftatörn þeirra bræðra. Það verður að viðurkennast að sjaldnast trúi ég orði af því sem Nathaniel einn Noble segir.  Það reynist honum þrautin þyngri að viðurkenna að eitthvað hafi verið honum að kenna. Hann reynir ekki að koma sökinni á einhvern annan, hann frekar harðneitar sök þar til hann er gjörsamlega, algerlega úr leik.
Um daginn, þá fór hann á salernið. Hér í húsinu eru tvö salerni; annað er á ganginum og er notað af þeim bræðrum sem og gestum. Hitt er inn af hjónaherbeginu. Ég tók eftir því, að í það sinnið notaði Natti salernið innaf hjónaherbeginu. Allt í lagi með það.  Einhverju seinna þarf ég inná baðherbegi og ákveð að líta inn á salernið, því stundum gleymist að sturta niður óskapnaðinum. Við skulum hafa í huga að Natti er fimm ára og því getur það reynst erfitt að ganga almennilega frá eftir sig ef Páfinn hafði margt að segja. Var það uppi á teningnum þarna. Ég sturtaði niður, setti klósettsetuna niður og ætlaði að slökkva ljósið. Þá sé ég hvar nokkrar brúnar slepjur, litlar og lekkerar, voru rétt við slökkvarann. Ég kallaði á Natta, án nokkurs ills raddblæs.  En hann virtist kveikja strax á perunni því um leið og ég kalla á hann, þá heyrðist "Ég ekki gera neitt mammaaaaaaaa". Ég bað hann samt að koma. " I. Did.Not. Do. IT!" Ég bað hann að róa sig og koma til mín. Hann gerði það nú á endanum blessaður.  Ég rétti honum blað með þrifefni í, og bað hann vinsamlegast um að þrífa þetta. Hann tók við blaðinu en endurtók að hann hefði. ekki. gert. þetta.! Ég hvái og spyr hvernig slepjurnar hafi þá komist á slökkvarann? Ekki hafi Eyjólfur farið þarna inn.  " You did it!" spýtti hann út úr sér, og kreistir reiður blaðið með þrifefninu. "Natti!?! Heldur þú, að ég, mamma þín, hafi farið á klósettið, kúkað og svo sett kúkinn á vegginn? Í alvöru Natti, ertu að segja það??"  Nú varð Natti orðin svo illur að hann sleppti blaðinu með þrifefninu í, stappaði niður fæti og sagði með þjósti, ögn hærra en þörf var á " What do I know what you do in the bathroom!!!!!" Áður en ég vissi, var allur rómverski herinn mættur inn á salernið, búinn að taka sér ból inní Natta og ég átti í mesta basli við að vinna sigur á hersingunni. Ég sem var hin rólegasta allan tímann, svo ég tali nú ekki um þegar ég kallaði á hann inn fyrst. En þegar þrifunum var lokið (já, hann þreif! ) þá fór Natti inní herbegið sitt og ég heyrði svo ekki í honum í þrjú kortér, því hann sofnaði. Það er erfitt að verða reiður.

Nú í kvöld, þá fór ég með þá bræður á rúntinn. Þá langaði að sjá jólaljósin hjá þeim sem hafa sett þau upp hér í hverfinu. ( Lenskan hér,oft á tíðum, er að setja upp jólaljósin um og rétt eftir þakkargjörðina). Í geislaspilaranum ómar á Sprengisandi, leikna af Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það er ró yfir okkur öllum og þeir bræður eru saddir, sælir og.....hljóðir!  Áður en ég veit af, er Natti farinn að deila með okkur sögum af skólalóðinni. Hann talaði svo hratt að ég átti í mestu erfiðleikum með að fylgjast með. Hann talaði og talaði og hló inn á milli.  Þegar Natti verður kátur í frásögn, þá á hann það til að hækka röddina á síðasta orði setningarinnar, svipað og stelpan í American Pie myndunum-"One time in band CAMP".  Gefum Natta orðið "..........and then, this BOY, KeeshAN, he is brown, he is annoyING, is always chasing me at SCHOOL. I don't want to be his FRIEND."(Þarna vogaði ég mér að spyrja afhverju.)  "Because, because mammA, he wears a COLOGNE!" (Þarna hváði ég) "Yes, he wears this COLOGNE, and it is called Green APPLE". Og er það ástæðan fyrir því að þú getur ekki verið vinur hans? Út af þessari lykt? "Yes! I hate Green Apples, you know that mamma!" (ég vissi það ekki neitt).  Áður en ég gat sagt jahérna hér, þá heldur hann áfram. (ég vil taka það fram að Á Sprengisandi var fyrir löngu lokið þarna) "......Keeshan has two friends and one is brown and one is white. I don't know them. I just know their names. I haven't met their families or anything." (ég var hætt að spyrja nokkurs.) "His FRIENDS mamma, are Beeshan and Deeshan." (Eyjólfur spurði hvort þeir væri með svona Green Apple Cologne. Ég var of sein á mér að biðja Eyjólf ekki um að blanda sér í þessa einræðu) ".....How should I know Eyjólvul, I haven't smelled them"
Þarna var ég búin að leggja bílnum í heimkeyrslunni. Ég sat bara við stýrið og hló. Ég einsetti mér, að gleyma ekki þessari einræðu, og ákvað því að skrifa hana hér inn.

Fáið þið einhverntímann svona eyrnaþreytu eins og ég talaði um í byrjun? Ef svo er, þá skiljum við hvort annað:)
Ég kveð í kútinn. Svanfríður.

föstudagur, nóvember 09, 2012

Listin að vera fullorðin og fara ekki yfir um

Núna undanfarið hef ég heyrt frásagnir fólks af því hvaða reynsla ýtti þeim yfir brúna sem tengir barn við fullorðinn einstakling.  Ég veit ekki hvort ég geti sett fingur á hvenær ég varð fullorðin.  Hvenær ég fann fyrir því og líkti mér við fullorðna konu heldur en að hugsa um mig sem stelpu. Einu sinni hélt ég að ég hefði orðið fullorðin þegar ég fæddi Eyjólf. Svo flutti ég til Bandaríkjanna sem gift kona og móðir og þá kannski hélt ég að ég væri nú loksins orðin fullorðin. Svo kom Natti og þá læddist þessi hugsun að mér aftur og svo enn á ný þegar Bert fór í burtu með hernum.  Síðan þá hefur ýmislegt bankað upp á en einhvernveginn stendur maður í fæturna og þeir sem hjá mér standa gera slíkt hið sama.  Þannig að það eina sem ég hef komist að er, að ég hef ekki hugmynd um hvenær ég varð fullorðin-allavega ekki eftir minni skilgreiningu.
Fullorðið fólk í mínum huga, er fólk eins og foreldrar mínir, systkini þeirra og einhverjir að vinum mínum.  Ég held ég setji samasem-merki á milli þess að vera fullorðin og þess að hafa vit á því sem það gerir og hvernig það höndlar hlutina.  Ég á vinkonu sem er fyrirtækjaeigandi.  Ég hef fylgst með henni allt frá byrjun og veit vel og skynja, að róðurinn hefur ekki alltaf verið léttur og kannski verður hann það aldrei alveg. En mér finnst hún alltaf hafa ráðið svo vel við hlutina; ég sver að mér finnst að hún ætti að vera forsætisráðherra og stýra landinu á góð mið, svo mikla trú hef ég á henni. Hún hefur oft gefið mér góð ráð í sambandi við matseld, bakstur, garðrækt og annað.  
Önnur vinkona var að byggja upp starfssemi frá grunni og fylgdist ég með henni gera það á snilldarhátt.  Hún efast ekki upphátt um sjálfa sig og þar held ég að ein af lausnunum sé komin. Að efast ekki um sjálfa sig. Ég þyrfti að læra það. Helst að taka meistarapróf í því, og horfa svo á diplómuna á hverjum degi :)  
Mér finnst ég hafa vit á fáu. Þegar ég hlusta á efnahagsmál, þá svimar mig og fer að hugsa um endur. Þegar ég hlusta á flækjuna í Mið-Austurlöndum, þá verð ég sorgmædd og hugsa um naglaklippur. Þegar ég reyni að muna hver er hvað í stjórnmálum þá líður mér eins og mér leið fyrir stærðfræðipróf-ég missi allt minni og held að ég sé að fara á ball.  En spurðu mig um hvað mér finnst um réttindi kvenna, réttindi þeirra sem nýðst er á, um seinni heimstyrjöldina, fiskveiði og kvóta, borgastjórann í Reykjavík, kýtinga á milli fólks sem ekki kaus það sama; þá get ég talað af sannfæringu.  
En það að vera grasekkja á nýjum stað, vera í skólanefnd (þar sem ég hef ekki hugmynd um hvað 80% af skammstöfunum standa fyrir), og allt það sem lífinu fylgir og allir aðrir eru að gera um leið og ég...þá langar mig (allavega í dag) bara að hlaupa heim til mömmu og segja: Segðu mér sögu ;) Eða að fá allar vinkonur mínar í kaffi, og hlæja mig máttlausa.  En svo, þegar mér líður svona á mis og út í beige, þá er ég samt glöð, finn að ég er það, ég er ekki leið eða döpur. Er kannski hrædd við að gera eitthvað sem ekki er rétt? Hvur veit.  Þessvegna segi ég: Listin að vera fullorðin og fara ekki yfir um. 
En hvað um það-í fréttum hér er það helst að frá og með deginum á morgun, þá erum við Bert orðin leigusalar og er litla bláa húsið okkar orðið heimili fyrir mann og 9 ára gamlan labrador hund.  Á morgun (laugardag) þá á Bert afmæli:)-og ég vona bara að hann muni eftir afmælinu sínu.  Einnig á morgun, þá fer ég í annað skiptið og verð eftirlitsmaður í lögbundnum heimsóknum sem forræðislaust foreldri fær.  Ég vona bara að allt gangi jafn vel á morgun og það gerði síðast. 

Ég vona að þið hafið það öll gott, og hafið fullkomnað listina: Að vera fullorðin.  En núna kveð ég í kútinn þar til næst. Kærar kveðjur, Svanfríður.

sunnudagur, nóvember 04, 2012

Dagarnir líða

"Allt fram streymir endalaust, ár og dagar líða" orti Kristján Jónsson fjallaskáld.  Auðvitað hafði maðurinn sá alveg hárrétt fyrir sér. Dagarnir líða á óendanlegum hraða.
Mörg ykkar vitið að það að flytja á nýjan stað, ber margar breytingar í för með sér og er hægt að nefna margt. En núna ætla ég að tala um að vakna klukkan sex á morgnana.  Ég er nátthrafn. Ég hreinlega dýrka að vaka lengi, njóta þagnarinnar, einverunnar og vitundarinnar um að enginn mun kalla á mig þegar ég er nýsest niður.  Ég geri ýmisslegt á kvöldin. Í mörgum kúltúrum myndi fólk hrista hausinn og kalla þetta sóun á tíma en ég hristi þá bara hausinn á móti og segi "ekki eru allir eins".  Stundum þríf ég; stundum skrifa ég fullt af tölvupóstum; stundum tala ég við Dísu vinkonu mína sem núna býr í Indónesíu. Dísa nefnilega skilur mig. Hún á flakkara fyrir eiginmann. Maðurinn hennar er líka kani og börnin hennar, tveir strákar, eru tvítyngdir. Þannig að hún er oft grasekkja líka og það er ekkert betra fyrir sálina en að tala við fólk sem þekkir það sem líf manns snýst um; stundum les ég; stundum horfi ég á kvikmyndir/heimildamyndir sem fjalla ekki um seinni heimstyrjöldina.   Svo núna þegar við vöknum klukkan 06 þá er ég afar aumingjaleg því ég nefnilega er ekki skynsöm; ég fer ekkert fyrr í rúmið þrátt fyrir að þurfa að vakna klukkan SEX.  Ég get alveg verið diplómatísk og hugsað um alla þá sem þurfa að vakna fyrr en það; um alla þá sem þurfa að vinna alla nóttina og allt það.  En í þessum pistli, kýs ég að vera ekki diplómatísk. Stundum finn ég þörfina á því að skríða aftur upp í rúm. Stundum geri ég það.  En stundum er ég líka rosalega dugleg og geri það ekki. Fer í zumba inn í stofu eða breyti mér í þessa líka húsmóður.  Ég á bara svo erfitt stundum, með að sleppa ungu Svanfríði, þessari sem gerði það sem henni sýndist (þannig séð) áður en börn og bura og þura komu til sögunnar.
En núna er komið nóg af því að tala um 6. Þannig gera ekki grasekkjur. Það gerir þær sorgmæddar ;)

Allt er gott í fréttum. Tengdamamma er hér enn. Lifandi.  Strákarnir eru samir við sig. Þeir læra fullt af ómannsæmandi orðum....í skólabílnum. Og ekkert endilega frá krökkunum, heldur af útvarpsstöðinni sem spilar morknaða tónlist yfir hausamótunum á þeim og bílstjórinn hlustar á. Eyjólfur sagði mér stóreygður, eða hvíslaði því að mér, því sumt er bara of dónalegt til að segja upphátt, að í útvarpinu hefði söngvarinn sagt: "Your boobs are hanging out" og "You are sexy and you know it". Natti sagði mér svo að Jonathan, fimm ára, hefði sagt "sexy". Bert segir að ég blóti eins og sjóari. Ég kýs að blóta eins og sjóari með virktum heldur en að tala um brjóst sem lafa. Þau hvort eð er, sýna fram á þroska ;)

Ég sagði ykkur frá því að ég hefði gerst sjálfboðaliði hjá kvennaathvarfi einu hér í bæ.  Eftir fyrstu vaktina, var mér ofboðið að ég fór uppí höfuðstöðvar og kvartaði yfir starfsmanni einum. Þetta var í annað skipti á ævinni sem ég hef kvartað yfir einhverjum við yfirmann. Fyrsta skiptið sem ég kvartaði, var yfir stærðfræðikennara í framhaldsskóla. Þannig að langt var síðan síðast.  Ég lagði fram kvörtun en var beðin um að halda áfram. Ég gerði það og tók að mér kennslu í athvarfinu, semsagt kennslu í heimilisofbeldi í raun-hvað það er, hvernig hægt er að byggja sig upp, hvernig það getur haft áhrif á börn og annað slíkt. Mér líkaði það mjög vel en fannst allt mjög ófagmannlegt þarna, þannig að lokum þá vildi ég ekki meir. Ég er ekki barn, ég er að berjast við að komast í skóla aftur svo ég geti lokið við masternum í félagsráðgjafanum svo ég geti reynt að skipta sköpum í þessari veröld, þannig að mér er fúlasta alvara og vil því ekki starfa á stað þar sem allt er á hvolfi.  Því fór, að ég mætti uppí höfuðstöðvar á mánudaginn fyrir viku í þeim erindagjörðum að hætta alveg. Ég útskýrði mitt mál, sagði að mér líkaði ekki við hversu allt væri laust í reipunum og að sjálfboðaliðar héldust ekki þarna og enginn vissi hvað hver ætti að gera. Svo tók ég í hendina á konunni, þakkaði henni fyrir mig og keyrði heim. Síminn minn hringdi áður en ég náði heim og var það yfirmaður alls prógrammsins. Í stuttu máli tjáði hún mér að hún hefði fengið veður af samtali mínu og væri mér sammála. Hvort ég væri tilbúin í, að bera hugmyndir mínar fram og mæta á fund þar sem talað væri um uppbyggingu á sjálfboðaliðsstarfinu. Ég gerði það og býð spennt eftir að vera kölluð á fund.  Svo var hringt í mig og ég beðin um að koma og sitja sem eftirlitsmaður þegar foreldri án forræðis kemur og hittir barn sitt skv. dómaraúrskurði. Ég sat í 4 tíma í gær yfir heimsóknum og verð að segja, að ég verð æ forvitnari um þetta starf því meira sem ég læri um það og get ekki beðið eftir að komast aftur í skóla. Mér finnst þetta bara svo forvitnilegt, skemmtilegt, spennandi og svo margt fleira. Eftir útskrift langar mig að mennta mig í Forensic Social Worker en þeir vinna með lögreglunni í ljótu málunum. Mjög spennandi.  Það besta við að eldast finnst mér, er að ég er orðin óhræddari við að segja það sem mér finnst. Ég segi óhræddari því ekki á ég auðvelt með það. Sumt finnst mér engum koma við. Ég heyrði einhverntímann að um mig var sagt, að ég ætti mjög auðvelt með að tala um allt annað en það sem mér virkilega finnst. Kannski er það rétt. Mér finnst bara að engum komi við það sem mér finnst um trú, pólitík og aðra hluti. Ég kannski ræði um það við vini og mína nánustu. Ég hrífst af fólki sem segir skoðun sína en ýtir þeim ekki inn á aðra og þá sem móðgast ekki þrátt fyrir að maður samþykki ekki það sem hinn segir. En í þessari veröld í dag, þar sem svo mörgu er snúið upp í andhverfu sína og bakari hengdur fyrir smið, þá er ágætt að stunda sitt með sínum.  En þegar málin snúast um þá sem litla eða enga vörn geta veitt, þá áttu að standa upp. Þú verður, átt og skalt. Ég skalf þegar ég var búin að kvarta en þegar búið er að berja á þér, brjóta þig niður á allan mögulegan máta, þá er kvörtun það minnsta sem ég get gefið.

En hvað kemur út úr þessu öllu þarna hjá athvarfinu, það veit ég ekki. Það er líka allt í lagi þótt ekkert komi út úr því. En ég gleðst yfir að fá að koma á fund og koma mínu á framfæri. Hvort þau taki því eður ei, kemur svo bara í ljós. Lífið heldur áfram þrátt fyrir það.  Svo orti Kristján Jónsson fjallaskáld.

Ég kveð í kútinn.  Svanfríður.